Öðrum að kenna - segir alkinn...

Það er langt síðan ég bloggaði síðast.  Langaði bara ekki til þess.  Kannski fannst mér bara ritstíllinn minn leiðinlegur og ég ekki kunna nógu mikið á sjálfa mig til að geta komið því frá mér sem ég vildi.  Það leit bara ekki vel út.  Ég þurfti að læra.

En þetta brölt var samt gott fyrir mig að einu leyti.  Ég sem aldrei hafði þorað að viðra skoðanir mínar og lét aðra segja mér hvað ég átti að hugsa og segja og hélt friðinn hvar sem ég fór hvað sem það kostaði, vandist því að sjá það sem ég las og vandist tilhugsuninni um að aðrir sæju það. Það sýndi mér líka manneskju sem ég kærði mig ekki mikið um að vera, manneskju sem samræmdist hvorki sannfæringu minni né eðli, ágætlega menntuð kona var að skrifa eins og manneskja sem ekki hefði einusinni klárað barnaskólann.  Eiginlega bara hálfgerður aumingi með lítið á milli eyrnanna.  Mér líkaði það ekki.

Vegferð mín byrjaði á því að ég ákvað að taka hugarfar mitt alveg í gegn.  Og hætta að nöldra á kaffistofunni.  Ég ákvað að hætta að vera förnarlamb.  Taka ábyrgð á því sem ég hleypti inná mig og reyna að komast að því hvað ég sjálf snerist mest um.  Þetta hætti að snúast um hvað aðrir gerðu og fókusinn færðist yfir á hvað ég var að gera og hugsa.  Hvað mér sjálfri fannst og hvernig ég sjálf vildi vera.  Ég vildi vera bjartsýn og jákvæð manneskja sem skipti máli.  Pollýanna flutti inn.

Ég gekk í stjórnmálaflokk.  Það var það besta sem ég gat gert.  Þar lærði ég hvað fólk hugsaði sem raunverulega hafði áhuga á að breyta heiminum. Fólk sem ekki sætti sig bara við að kvarta undan óréttlæti heimsins við eldhúsborðið heima.  Þegar leið á gat ég lagt mat á mína sannfæringu versus þeirra sannfæringu.   Eftir mína fyrstu kosningabaráttu, þar sem allir voru á móti okkur og virkilega reyndi á hana Pollýönnu, landaði ég stöðu í ráði og svo stýrihóp og síðan tvö tímabil í stjórn flokksins. Allt á sama kjörtímabilinu.  Þetta voru alltsaman hlutir sem ég hvorki treysti mér í né hafði nokkurntíma þorað að gera en tókst á við og viti menn, þetta gekk alltsaman ágætlega og ég lærði svo mikið.  Þetta herti mig svakalega og ég er mikið þakklát fyrir þessa reynslu.  En ég þroskaðist pínufrá þessu fólki, þetta var bara liður í vegferðinni minni og leit að sjálfri mér.  Rétt undir lok kjörtímabilsins fór ég í annan flokk og það var það skemmtilegasta sem ég hef nokkurntíma gert. Hver veit, ég gæti verið þriggja eða fjögurra flokka manneskja undir lokin, en þarf ekkert að skammast mín neitt fyrir það, þetta er einfaldlega partur af mínu þroskaferli, ferli sem ég neitaði sjálfri mér um í svo mörg ár,  og leit minni að kjarnanum í mér.

Ég og Pollýanna erum vinkonur og hún er ekkert að flytja út.  Hvað tekur við, hef ég ekki hugmynd um. Það er fullt að læra. Veit ekki neitt.  Nema bara það að ég er þakklát og mér gengur betur, bæði vinnulega og andlega en alltaf áður.  Ég hef líka komist að því að ég er sterkari en margir - og sjálfstæðari og get tekist á við svo margt, í raun er mér farið að þykja það gaman, ég leita orðið uppi áskoranir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband